Grein úr Morgunblaðinu, 10. mars 2005
Opnun fyrir helgi og Hrafnkell Sigurðsson í i8 en sýningin verður opnuð í dag.
ÉG geng inn í i8 á Klapparstíg, en í dag verður opnuð þar sýning á verkum Hrafnkels Sigurðssonar. Við mér blasa tvær skærklæddar og fremur ferkantaðar verur, í endurskinsborðalögðum búningum - og listamaðurinn.
Hvað er þetta? "Þetta eru verkamenn.
ÉG geng inn í i8 á Klapparstíg, en í dag verður opnuð þar sýning á verkum Hrafnkels Sigurðssonar. Við mér blasa tvær skærklæddar og fremur ferkantaðar verur, í endurskinsborðalögðum búningum - og listamaðurinn.
Hvað er þetta?
"Þetta eru verkamenn."
En þetta?
"Þetta verk heitir Opnun fyrir helgi."
Hvers vegna?
"Vegna þess að þetta er eins og búðargluggi, eða búðarhurð í verslun sem verið er að gera upp, eða breyta - til dæmis í Kringlunni. En ég ætla ekki að ofútskýra verkið fyrir þér, - mér finnst það nokkuð ljóst. Fólk þarf að gefa sér tíma. Það er tilhneiging til þess að hafa alla hluti instant . Ég bý til verk, og verð að segja frá því strax út á hvað það gengur og hvað þú átt að fá út úr því - það þarf allt að vera skýrt á yfirborðinu. Ég vil ekki stela of miklu frá áhorfandanum."
En hvað er þetta?
"Þetta er ljósmynd sem ég tók á öskuhaugunum í Álfsnesi. Þetta er baggi með rusli eins og það kemur samanpakkað frá Sorpu. Þetta er tekið á gaffallyftara úr sendiferðabíl og staflað upp inn í landslagið. Verkið heitir Fylling, og þú sérð hvað það er sjónrænt og hvernig það fellur inn í landslagið fyrir aftan. Ég er að sýna augnablikið þar sem sorpið, og þar með hluti af okkur sjálfum, er að renna saman við landið. Mér finnst þetta vera mynd af því augnabliki þegar við verðum eitt með náttúrunni. Þú þekkir þessa sterku upplifun af náttúru - til dæmis á hálendi Íslands, - þar sem þér finnst þú tengjast náttúrunni og upplifir eitthvað mikið og stórt. Ég er svolítið að hugsa um þannig upplifun þegar ég geri þessar myndir."
Með hliðsjón af verkinu sem þú sýndir mér hér áðan, Opnun fyrir helgi, verð ég að spyrja hvort neysla mannfólksins sé þér sérstaklega hugleikin?
"Já. Neyslan er þörf sem við höfum í okkur. Ég er svolítið að bera hana saman við andlega þörf okkar, - grunnþarfir eins og mat og líkamlegar þarfir við þarfir sem við köllum stundum æðri þarfir, - en eru ekkert endilega æðri, bara öðruvísi, og andlegar. Þess vegna höfum við kannski áhuga á myndlist. Þessum elementum er ég einmitt að tefla saman og leika mér með hugmyndina um verslunina sem einhvers konar musteri þar sem þú leitar að einhverri fyllingu. Opnun fyrir helgi, - það á við áður en þú kemst inn að ná þér í fyllinguna, en hér er hún komin aftur, - búið að pakka henni saman og allt klárt til þess að urða hana. Þarna á milli er stórt bil sem ert þú og þitt líf, - og um leið og ég er að sýna þér upphafið og endinn er ég að ramma líf þitt inn."
Þú ert um leið að upphefja eitthvað sem er ekki almennt viðurkennt að eigi að vera upphafið - þetta er sorp!
"Þetta er sennilega með því lægsta - þetta er úrgangurinn, - já, sorpið. Maður vill helst ekki þurfa að horfa á það. Þegar ég var í Sorpu að taka myndirnar upplifði ég að ég væri kominn inn á óhreint svæði og velti því fyrir mér hvort ég væri að gera eitthvað óhreint - hvort það væri eitthvað sjúklegt við það að hafa áhuga á þessum úrgangi. En það er ákveðin ögrun í því að taka á einhverju sem er jafnvel viðbjóðslegt og gera það aðdáunarvert - jafnvel fallegt."
Við skoðum verkamennina betur áður en við göngum niður þar sem Hrafnkell segir mér frá myndbandsverki sem þar verður og sýnir mér aðra mynd af landslagi neyslunnar... eða er það altari neyslunnar? Í það verðið þið að ráða lesendur góðir, en sýning Hrafnkels í i8 verður opin til 30. apríl.