Smíð / Fabrication.
Installation.
Skúrinn, HB Grandi warehouse, Reykjavík 2013.
Var mig að dreyma? Er ég vaknaður? Var ég einhvers staðar?
Manni finnst maður vera einhvern veginn – sem einstaklingi og sem hluta af heild, samfélagi, byggð, þjóð. Við speglum okkur í fólkinu í kring og það í okkur; við verðum endalaust tilbrigði við okkur sjálf, leikum spegilmynd okkar, spegilmynd spegilmyndar. Íslensk sjálfsmynd er eins og glerið, sterk og brothætt: hún sýnir velgengni og kjafthátt, vöðva og þrjóskulega staðfestu, í henni blandast væg gúanólykt kölnarvatninu, rösklegt verkstjóra-jæja ómar þar undir teknóinu og gavottunum, íslensk gleði snýst um dugnað fremur en hamingju. Og maður er aldrei viss, aldrei alveg viss, aldrei viss, var mig að dreyma? Er ég vaknaður? Grundvöllurinn riðar undir manni: kannski er engin höll, bara vinnuskúr, kannski maður sé bara í pásu og ekki staddur í raunverulega lífinu? Kannski er þetta lygi, hverfull draumur, einhver að spila með okkur, var ég einhvers staðar, gerðist eitthvað?
Var mig að dreyma?
Og svo vitjar manns allt í einu þessi minning um gleymdan unað, vissan um að hafa einu sinni upplifað sælu og hinn undursamlega óumræðileika. Maður telur sér trú um að til sé staður í alheiminum þar sem þetta allt sé að finna. Þetta sé staðurinn þar sem maður eigi heima og hann sé órafjarri og undurnærri. Inni í okkur er höll og einn góðan veðurdag kvikna öll ljósin þar á ný. Einhvers staðar djúpt í okkur býr minningin um eilífðina.