Eyðing og sköpun
Hrafnkell Sigurðsson sýnir verk í Hverfisgalleríi og ber sýningin yfirskriftina Tjónverk / Recondestruction. Efniviðurinn er sóttur í brotin skíði, stóla, spýtnabrak, snjóþotur og beygluð skilti í kjölfar snjóflóðs sem féll á skíðaskálann í Skarðsdal í Siglufirði síðasta vetur.
„Verkin eru skúlptúr sem ég bjó til á Siglufirði í sumar þar sem ég dvaldi í listamannavinnustofu,“ segir Hrafnkell. „Ég lagði leið mína upp í skíðasvæðið í Skarðsdal og gekk þar fram á drasl sem var á víð og dreif í snjóskafli í gili fyrir neðan skíðasvæðið. Þetta reyndist vera brak úr skíðaskálanum sem varð fyrir snjóflóði og splundraðist. Ég skynjaði mátt náttúrunnar í þessum brotum, hversu miklir kraftar hefðu valdið þessari eyðileggingu. Ég ákvað að smíða eitthvað úr þessum brotum. Svo leit ég í kringum mig og hugsaði með mér að gott væri að reisa skúlptúr á stöpli. Allt í einu sá ég glitta í steyptan kassa í gilinu sem var eins og hann hefði verið gerður fyrir skúlptúr.“
Spurður hvort ekki hafi kostað mikla vinnu að smíða verkið segir Hrafnkell: „Það var brjáluð vinna að skrapa saman, negla og skrúfa og hlaupa upp og niður gilið. Ég fór í ham.“
Hrafnkell segist hafa gert skúlptúrinn með það í huga að mynda hann. Afraksturinn er fimm ljósmyndir sem sýna skúlptúrinn frá mismunandi hæiðum. „Skúlptúrinn er rúmir tveir metrar á hæð. Til að ná þessum bláa himni fyrir aftan skúlptúrinn án þess að sýna fjöll og umhverfi þurfti ég að nota langa linsu. Fjarlægðin varð að vera mikil og það kostað hlaup með myndavélina upp bratt gil, fram og til baka í hvert sinn sem eitthvað þurfti að laga.“
Hvað vill hann að áhorfandinn skynji þegar hann horfir á myndirnar? „Þessi skúlptúr er óregluleg kaótísk samsetning, eins og sprenging. Það er eins og augnablikið þegar snjóflóðið féll á skálann sé komið í mynd. Með verkinu er ég að endurbyggja sjálft augnablik eyðileggingarinnar; setja saman eyðileggingu og mína sköpun. Það er ekki til neitt orð sem sameinar þessar andstæður, eyðileggingu og sköpun- þannig að ég bjó til nýtt orð recondestruction eða tjónverk,“ segir Hrafnkell.
Auk mynda af skúlptúrunum er á sýningunni lítil mynd sem sýnir snjóflóðavarnarefni, sem notað sem sem stoðefni í snjóflóðagarða. „Mig langaði til að mynda þetta efni til að undirbyggja ákveðna sögu eða frásögn sem er í verkinu og tengist snjóflóðinu á þessu augnabliki. Ég kalla myndina Fyrirbyggingu/Precondestruction. Það er ekki búið að byggja úr efninu en einmitt það hefði getað komið í veg fyrir að skálinn splundraðist.“